143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Auðvitað er erfitt að bæta í en sums staðar er tekin sú ákvörðun að bæta í hjá stofnunum, m.a. í forsætisráðuneytinu upp á 165 milljónir, að einhverju leyti fluttar heimildir en að öðru leyti bætt í, en þar sem augljóslega vantar fjármuni til vetrarþjónustu er ákveðið að taka viðhaldið.

Það kom líka fram í máli fulltrúa Vegagerðarinnar um mörkuðu tekjurnar, af því að við höfum aðeins rætt þær og þær eru til umfjöllunar í fjárlaganefnd, að hin meinta skuld sem um hefur verið rætt, þ.e. þessir 16 milljarðar og það sem þeir hafa verið látnir skila núna, er tekin af þeim fjárstofni. Ef það verður nú lagt af telur Vegagerðin sig ekki hafa neitt tækifæri til að greiða það til baka því að hún telur sig ekki geta borið beinan niðurskurð sem þessu nemur til að greiða niður þessar skuldir. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála því viðhorfi Vegagerðarinnar að ríkissjóði beri þá að fella niður eftirstöðvarnar.

Ég veit að hv. þingmaður er einnig áhugamaður um fjarskiptasjóð. Þar er verið að taka 195 milljónir sem eiga að fara í Farice-samninginn. Eins og við vitum, sem höfum farið um okkar kjördæmi og víðar og þingmaðurinn þekkir mjög vel, er ástandið bágborið og með þessu móti tel ég sjóðnum gert algjörlega ókleift að sinna hlutverki sínu bæði varðandi neyðar- og öryggissjónarmið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hann telur í þessum málum.