143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta með fjarskiptasjóð er líka eitt af millifærsludæmum þessarar ríkisstjórnar þar sem hún þiggur tekjur af hinum og þessum liðum eins og nefskattinn fyrir útvarpið og tekur í annað, hækkar innritunargjöld í háskóla og tekur í annað og tekur útboðstekjur af 4G og setur í ríkissjóð en ekki til fjarskiptamála. Þetta er mjög óforskammað vegna þess að menn voru að bíða eftir þessum peningum í hið stóra og mikla átak sem gert var á síðasta kjörtímabili í netvæðingu landsins þó að tækni fleygi fram og sumt af því sem var talið ágætt þá sé ekki gott í dag. Við getum rætt það síðar. Stundum snýr þetta líka að endabúnaði.

Mig langar aftur að koma inn á hlutinn sem hv. þingmaður spurði mig út í og ég komst ekki að með í ræðu minni áðan, þ.e. með Vegagerðina. Hér er bara gert ráð fyrir 600 millj. kr. lækkun á tímabundinni fjárveitingu til framkvæmda við vegamannvirki sem fjármagna átti með sérstakri tekjuöflun af veiðileyfagjaldinu. Það er sem sagt skorið niður. Síðan er rætt um það sem ég hef áður gert að umtalsefni á Alþingi, með leyfi forseta:

„Mörg þessara verkefna voru boðin út snemma árs 2013 og búið var að stofna til skuldbindinga, svo sem með samningum við verktaka, þegar ljóst var að forsendur um fjármögnun fjárfestingaráætlunar voru ekki lengur til staðar.“

Þær voru ekki lengur til staðar vegna breytinga stjórnarflokkanna á veiðileyfagjaldinu, gistináttaskattinum o.s.frv.

Virðulegi forseti. Hér kemur það bersýnilega fram, sem mér finnst að eigi að þakka fyrir, að það var leitað leiða til að skera niður framkvæmdir eins og við Norðfjarðargöng sem stjórnarflokkarnir hefðu gert ef síðasta ríkisstjórn hefði ekki komið því þannig fyrir að þetta var boðið út vel fyrir kosningar, tilboð opnuð, farið yfir samninga og skrifað undir. (Forseti hringir.) Verkið var orðið klárt. (Forseti hringir.) Annars hefði það verið skorið niður af þessari ríkisstjórn eins og svo margt annað.