143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að gefa okkur þingmönnum tækifæri til að ræða hér nokkuð ítarlega um fjáraukalagafrumvarpið enda um mikla almannahagsmuni að ræða og mikla fjármuni sem verið er að ráðstafa. Ég verð nú að segja að ég sakna þess að sjá ekki einn einasta stjórnarliða hér í salnum. Ég skil ekki að nokkur bragur sé á því að í þingsalnum á þessu [Hlátur í þingsal.] kvöldi sé ekki einn stjórnarliði. (Gripið fram í: Hann er mættur.) Ég fagna því að formaður utanríkismálanefndar er hér kominn. Það er nú eiginlega alveg lágmark að stjórnarliðar í fjárlaganefnd séu viðstaddir umræðuna, að ég tali ekki um formaður nefndarinnar og varaformaður. Við getum út af fyrir sig búið við það að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra séu ekki á staðnum, en það er nú eiginlega algjört lágmark að nefndin sem ber ábyrgð á málinu sé viðstödd umræðuna. Svo er kannski ástæða til að inna forseta eftir því hversu (Forseti hringir.) lengi hann hyggst halda fundi áfram hér í kvöld.