143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það sem kemur í hug manns, þegar maður hlýðir á orð hv. þingmanna, sem hér hafa rætt um fundarstjórn forseta, er hversu klént þetta allt saman er. Ég held það sé mikil bjartsýni af virðulegum forseta að áætla að hægt sé að taka fyrir fjáraukalög, að hægt sé að taka fyrir tekjuöflun og að hægt sé að taka fyrir 2. umr. fjárlaga allt í einni og sömu vikunni eins og upprunalegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Það liggur fyrir að fjárlögum hefur seinkað í vinnslu. Það liggur líka fyrir að frumvarp til fjáraukalaga kom seint fram. Það hvarflar að manni, eftir að hafa fylgst með umræðunni í dag, að nauðsynlegt sé að skoða nákvæmlega hvernig eigi að skipuleggja þingstörf fram að áramótum svo að hv. þingmenn geti betur áttað sig á því og skipulagt sig í því hvernig umræðum á eftir að vinda fram hér. Í ljósi þess að langt er liðið á kvöld tel ég ekki vanþörf á að það verði tekið til umræðu eftir því sem þessari viku vindur fram.