143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held það sé hárrétt, sem komið hefur fram hjá ýmsum þingmönnum í þessari umræðu um fundarstjórn forseta, að það sé fullkomlega eðlilegt að menn velti fyrir sér hvar forusta ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd sé stödd í þessari umræðu. Einhverjir hafa haft orð á því að eðlilegt væri að kalla eftir ráðherrum eins og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, en ég vil líka vekja máls á því, vegna þess að það hefur komið fram í umræðunni hér, að tilefni væri til að óska eftir viðveru ýmissa annarra ráðherra. Ég ætla að nefna sem dæmi hæstv. félags- og húsnæðisráðherra sem í umræðum fyrir ekki alls löngu vakti máls á því að hún vildi reyna að tryggja að atvinnuleitendur fengju desemberuppbót, en í fjáraukalagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að komið verði til móts við það. Ég hefði viljað að hæstv. félagsmálaráðherra skýrði það.

Ég hefði líka talið að hæstv. menntamálaráðherra þyrfti að vera hér til að skýra út áform sín um styttingu náms til stúdentsprófs sem á að fara einhverjar krókaleiðir í gegnum fjáraukalagafrumvarpið sem meira að segja meiri hluti fjárlaganefndar (Forseti hringir.) treystir sér ekki til að mæla (Forseti hringir.) bót og gagnrýnir harðlega í áliti sínu. Ég tel fulla ástæðu, (Forseti hringir.) herra forseti, til að kallað verði eftir fleiri ráðherrum til að taka þátt í þessari umræðu.