143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt sem hefur komið hér fram að ég hafi í upphafsorðum mínum verið allt of eftirlátur við stjórnarmeirihlutann, kannski í anda jólanna, með því að kalla ekki sérstaklega eftir því að ráðherrar væru við umræðuna. Auðvitað eru ríkar efnisástæður til þess að ýmsir fagráðherrar og ekki síst formenn stjórnarflokkanna séu við umræðuna. Ég vil undirstrika að að það er algert lágmark, virðulegur forseti. Ég vona að forseti hafi gert ráðstafanir til þess að stjórnarmeirihlutinn í nefndinni sem leggur fram þær breytingartillögur, eða eigum við að kalla það getgátur orðið hér í þinginu, sem meiri hlutinn kynnir við þessa umræðu, sé við umræðuna. Ég sakna enn sérstaklega úr þeirra hópi bæði formanns fjárlaganefndar og varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem er ekki vanur að láta sig vanta við pólitískar umræður í þessum sal.