143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt að það var auðvitað gríðarleg eftirspurn eftir átakinu Nám er vinnandi vegur. Við hv. þingmaður unnum saman að því að koma þessu átaki á koppinn og þegar atvinnuleysi jókst hér mjög eftir kreppu, ekki síst á meðal ungs fólks, lenti ungt fólk í vandræðum með að komast í nám því að kerfið var hreinlega ekki sniðið þannig til að fólk ætti aðgang að námi. Því var farið í mikla vinnu Vinnumálastofnunar, þáverandi félagsmálaráðuneytis og hæstv. félagsmálaráðherra, sem þá var hv. þm. Árni Páll Árnason, og menntamálaráðuneytis til að greiða fyrir þessum leiðum, tryggja framfærslu þessara ungmenna og bjóða þeim nám við hæfi.

Auðvitað hefur eftirspurnin minnkað eftir því sem frá kreppu hefur liðið. Við getum verið ánægð með að það hefur náðst gríðarlegur árangur. Það var ánægja með átakið, það var áhugavert að sjá að brottfall ungmenna sem sóttu nám í gegnum þetta átak var mjög lítið. Það var mjög ánægjulegt. Hins vegar tel ég rétt að benda hv. þingmanni á að það var bara hluti þessa átaks.

Annar hluti þess sem unninn var með aðilum vinnumarkaðarins í mjög góðu samráði og sátt var að efla námsframboð, ekki síst á sviði iðnnáms og verknáms hvers konar sem hv. þingmenn ræða nú hér reglulega um að sé mjög mikilvægt að gera eitthvað í. Það var settur á laggirnar sérstakur starfsmenntasjóður með fjármunum úr þessu átaki, sú staða er auðvitað enn þá nákvæmlega jafn aðkallandi. Þó að sem betur fer hafi atvinnuástand batnað þannig að eftirspurn er minni eftir sjálfum námsplássunum voru þessir fjármunir nýttir í þetta í góðu samráði við aðila atvinnulífsins sem hafa háð baráttu fyrir því að eflt verði hér starfs- og verknám. Hvernig nákvæmlega á að koma til móts við það veit ég ekki.