143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal svara þessari athugasemd fyrir hönd meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Ég tel fulla ástæðu til að lesa þann kafla sem lýtur að þessu í heild sinni og hefur komið fram, með leyfi forseta:

„Lagt er til að ónýttar fjárheimildir, m.a. vegna verkefnisins Nám er vinnandi vegur, falli niður en þess í stað er gerð tillaga um að ráðstafa samsvarandi fjárhæðum til undirbúnings endurskipulagningar, svo sem vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Ekki er ætlunin að nýta þær heimildir fyrr en á næsta ári.“

Hér kemur fram, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi áðan:

„Meiri hlutinn átelur þessi vinnubrögð og bendir á að réttara sé að ónýttar heimildir falli niður“ — og eins og ég sagði áðan í ræðu minni — „og ráðherrar geri þá nýjar tillögur um útgjöld í samræmi við breytta forgangsröðun þannig að tillögurnar rúmist innan fjárhagsramma hvers árs.“

Svo kemur það merkilega í þessari tilvitnun, með leyfi forseta:

„Engu að síður gerir meiri hlutinn ekki breytingar á fyrirkomulaginu að þessu sinni en beinir því til ráðuneyta að taka upp ný vinnubrögð.“

Hv. fjárlaganefnd er væntanlega eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu. Við setjum lög um það hvernig við skipuleggjum fjárreiður ríkisins og okkur er ætlað að hafa eftirlit með þeim. Það er sérkennilegt ef eftirlitsaðilanum finnst fullnægjandi að í fjáraukalögum sé beinlínis sagt að heimildina eigi ekki að nýta á þessu ári heldur á því næsta, að á sama tíma séum við að vinna fjárlög fyrir næsta ár og meiri hlutinn segi: Ja, okkur finnst þetta dálítið skrýtið. Okkur finnst þetta eiginlega ekki í lagi en við ætlum ekkert að gera í því.

Ég fæ ekki trúað því, virðulegi forseti, að hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum láti nappa sig svona, að segja að þetta sé rangt en ætli samt ekkert að gera í því. Það gengur ekki upp. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á (Forseti hringir.) því í atkvæðagreiðslu að þetta verði samþykkt. Það hlýtur að vera hægur vandi að taka á þessu máli milli umræðna í fjárlaganefnd.