143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og fyrir að lesa úr þessu sérkennilega nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Ég minnist þess satt að segja ekki á mínum ferli í þinginu að hafa heyrt nefnd kveða að orði með þessum hætti, að átelja fram komnar tillögur og telja að þær standist ekki en gera þær samt að sínum.

Virðulegur forseti. Ég verð að spyrja: Hvers konar endileysa er eiginlega í gangi? Fjárveitingar á fjáraukalögum fyrir árið 2013 sem eru fjárheimildir fyrir árið 2014? Eru engar reglur í gildi í húsinu lengur? Eru engin lágmarksviðmið um hvað er hægt að bjóða upp á og hvað ekki?

Ég verð að ítreka þá spurningu mína til hv. þingmanns hvort ekki sé nauðsynlegt milli umræðna að fá ríkisendurskoðanda að málinu og fara yfir það með nefndinni hvort þessi framgangsmáti sé í samræmi við lög, því að ef fjárlaganefnd Alþingis fylgir ekki fjárreiðulögum ríkisins hver á þá að gera það?