143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig beinnar spurningar, þ.e. hvort ég telji eðlilegt að málið verði skoðað milli umræðna. Ég held satt að segja eftir að hafa lesið þetta nefndarálit og tillögugreinina að full ástæða sé til þess að hv. fjárlaganefnd taki tillöguna til endurskoðunar milli umræðna, kalli hana jafnvel til baka við atkvæðagreiðslu við lok 2. umr., fari nánar yfir málið milli umræðna. Það væri ekkert óeðlilegt að einhverjir hv. þingmenn í nefndinni óskuðu eftir utanaðkomandi áliti Ríkisendurskoðunar á því hvort þessi framgangsmáti gengi upp þegar í raun og veru er sagt að þarna eigi að nýta heimildir á næsta ári, sérstaklega af því hér erum við um leið að vinna fjárlög.

Það er auðvitað eðlilegra, eins og hv. meiri hlutinn segir, að slík heimild komi einfaldlega inn í fjárlagavinnuna. Það er hægur vandi, 2. umr. er eftir og breytingartillögur hafa verið „work in progress“, svo ég sletti aðeins. Þar má vafalaust vinna áfram. Það væri að sjálfsögðu eðlilegur framgangsmáti þannig að ég teldi eðlilegast að hv. fjárlaganefnd færi yfir málið fyrst, yfir það hvort hún sé ekki sammála mér um það mat á málinu.