143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Núna þegar jólahátíðin nálgast eru flestir þannig þenkjandi að þeir hugsa til þeirra sem minna mega sín. Það veit ég að á við um okkur öll hér inni og þess vegna vil ég vekja athygli á því að atvinnuleitendur fá ekki desemberuppbót í ár. Mér finnst það fyrir neðan allar hellur að stjórnvöld ætli að leggja það af sem var komið á fyrir þremur árum, að atvinnuleitendur fengju desemberuppbót sambærilega og verkafólk og iðnverkafólk. Þetta er ekki há upphæð, rúmar 52 þúsund krónur á mánuði, en fólk sem hefur ekki úr miklu að spila, eingöngu atvinnuleysisbótum, og á í miklum erfiðleikum með að ná endum saman munar um þá upphæð í jólamánuðinum. Það kom því fólki sem er í þessum sporum virkilega á óvart að það skyldi vera vilji stjórnvalda að leggja þetta af.

Það hafa komið þau svör frá Vinnumálastofnun um að hún vísi á velferðarráðherra og -ráðuneytið og það hafa líka komið þau svör að hæstv. velferðarráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra, hafi vilja til þess að veita fjármagn í desemberuppbót. Þess vegna skora ég á velþenkjandi hæstvirta ráðherra að taka höndum saman og leggja þær 240 milljónir sem þarf til til að mæta þessum útgjaldalið í desemberuppbót. Annað væri skömm fyrir viðkomandi stjórnvöld.