143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

(ÖJ: Þið standið ykkur vel, áfram!) Virðulegur forseti. [Hlátur í þingsal.] Ég þakka hv. þingmanni Suðvesturkjördæmis, Ögmundi Jónassyni, hrósið. (Gripið fram í.) Það er þannig í pólitík að menn greinir á um leiðir þó að markmiðin geti hugsanlega verið þau sömu. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða. Þess vegna eru til ólíkir pólitískir flokkar. Svo einfalt er það.

Hér hefur komið fram að það er verið að setja inn í fjárlögin, sem við væntanlega tökum til 2. umr. á föstudaginn kemur, rúmar 4.000 milljónir í heilbrigðiskerfið. Það er líka ljóst samkvæmt fjárlögum að 6.000 milljónir fara til eldri borgara og öryrkja. Það er verið að lækka skatta á hóp fólks í landinu um 5 milljarða. Það er sama hvar við stöndum í pólitík, við hljótum að geta verið sammála um að þetta sé áfangi, þetta sé skref í rétta átt.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að minni hlutinn á þingi ætli að tala niður þann árangur sem þó er sýnilegur í fjárlagafrumvarpinu. En ég ítreka að það er ljóst að í pólitík greinir menn á um leiðir að markmiði.

Hér hefur líka mikið verið rætt um þróunaraðstoð. Í síðustu fjárlögum setti þáverandi ríkisstjórn aukakraft þar inn sem nam 0,26% af vergri landsframleiðslu. Það er verið að taka niður í 0,23% af vergri landsframleiðslu. Þróunaraðstoð áranna 2010, 2011 og 2012, a.m.k. 2011 og 2012, var 0,21% (Forseti hringir.) af vergri landsframleiðslu.

Reynum í það minnsta að vera sátt við það sem vel er gert og (Forseti hringir.) tökumst svo á um annað.