143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku voru samþykkt tvö frumvörp í ríkisstjórn sem ég er sérstaklega ánægð með. Annað þeirra er frumvarp um frestun nauðungaruppboða og hitt er frumvarp til laga um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta. Þótt þessi frumvörp snúist ekki beint um einhver fagnaðarefni tel ég þau mjög mikilvæg og til bóta fyrir marga sem eiga í erfiðleikum vegna skuldastöðu sinnar. Mér finnst nauðsynlegt að þessi mál komist í gegnum þingið en þau eru bæði á dagskrá í dag.

Að setja stopp á nauðungaruppboð er mikilvægt og ber að fagna ákvörðun hæstv. innanríkisráðherra í þeim efnum. Þetta er mikilvægt meðan aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna ná fram að ganga. Það er að mínu mati nauðsynlegt því að miklar líkur eru á að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar muni breyta stöðu einhverra heimila og forða þeim þannig frá nauðungarsölum.

Í því samhengi vil ég minnast á að nauðsynlegt er að bregðast við málefnum þeirra heimila sem nú þegar hafa farið í uppboð og eru enn þá á samþykkisfresti. Bregðast þarf við því og auka samþykkisfrestinn sjálfkrafa á þeim málum svo hann verði til 1. júlí nk., alveg eins og með aðra frestun á nauðungarsölum.

Skoðun mín er sú að gæta verði jafnræðis í þessum málum og þykist ég vita að það verði gert.

Einnig ber að fagna að frumvarp um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta er komið fram. En það er bara þannig að ákveðinn hluti einstaklinga á enga aðra leið færa en að fara í þrot, því miður. Ég er viss um að einhver hluti skuldsettra einstaklinga hefði gjarnan og þegar viljað geta byrjað að nýju í stað þess að standa í stappi við fjármálastofnanir í mörg ár sem elta þá út í hið óendanlega.

Eftir mat á greiðslustöðu einstaklinga fá þeir sem uppfylla skilyrðin gjaldþrotaskiptin greidd og geta klárað sín mál. Auðvitað er það aldrei ánægjulegt þegar þessi staða kemur upp og það er virkilega erfitt að horfa á eftir þeim sem hafa enga aðra möguleika en að fara í þrot en ég hef fulla trú á því að þessi frumvörp muni hjálpa skuldsettum einstaklingum.