143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (F):

Virðulegi forseti. Í kringum árið 2006 fór að verða vart við síld í miklu magni í Breiðafirði og gekk hún inn á Grundarfjörð, Kolgrafafjörð og víðar. Þótti þetta tíðindum sæta. Við mælingar kom í ljós að um gríðarlegt magn var að ræða og fóru síldveiðiskip til veiða og hafa gert það á hverju hausti síðan.

Það má til gagns og gamans geta að um 1950 voru síldveiðar stundaðar í Breiðafirði. Í annálum og skjölum frá síðustu öld má finna frásagnir af því að í kringum 1943 fóru menn að ganga fjörur í Kolgrafafirði til að tína síld sér til matar. Ég hef heyrt svipaðar sögur af síldardauða allt aftur til 1908. Allt er þetta fyrir tíma þverunar fjarðarins.

Í dag vita fræðimenn að þetta er sumargotssíld sem fitar sig eftir hrygningu og leitar síðan að stöðum til vetrardvalar og þá helst í kaldari og vatnskenndari sjó, sem er að finna inni á fjörðum og flóum, og gengur á vorin til hrygningar. Síldin er mikið ólíkindatól eins og hún hefur sýnt og sannað síðustu áratugi. Síldardauðinn í Kolgrafafirði á síðasta ári vakti mikla athygli og var talað um að þarna hefðu gengið á land tugir þúsunda tonna og magnið af síld í firðinum væri 250 þús. tonn.

Orsakir síldardauðans gætu átt sér nokkrar skýringar, segja menn. Súrefnismettun var mjög lítil og er talið að það sé hluti af skýringunni. Það er líka athyglisvert að í bæði skiptin sem síldin gekk á land var stórstreymi, heiðskírt og tunglið skínandi bjart á vesturhimni. Núna í haust er síldin enn og aftur komin í Kolgrafafjörð, eins og flestir landsmenn vita. Þó mælist minna magn, eða um 70 þús. tonn, og virðist súrefnismettun vera í góðu lagi. Þó að sjálfsagt sé að fylgjast með gangi mála þarna, hefði ekki mátt bíða átekta og sjá hverju fram vindur í staðinn fyrir þessar tilraunir með síldarsmölun sem hafa verið prófaðar? En mögulega getum við lært af þessu.