143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sá sögulegi atburður var í lok nóvember að haldin var fyrsta alþjóðlega ráðstefna þingkvenna í heiminum. Þar komu saman yfir 400 þingkonur frá yfir 100 löndum auk annarra þátttakenda. Ég er afar þakklát fyrir tækifærið til að taka þátt í þeirri ráðstefnu.

Á ráðstefnunni var Ísland í sviðsljósinu, ráðherrar tóku við viðurkenningum fyrir góðan árangur Íslendinga í jafnréttismálum og fulltrúar okkar voru meðal lykilfyrirlesara.

Þrátt fyrir að koma frá landi sem náð hefur hvað bestum árangri í jafnrétti kynjanna á heimsvísu lærði ég margt á þessari ráðstefnu. Það kom mér að mörgu leyti á óvart að hitta allar þessar öflugu þingkonur, hvort sem þær voru í drögtum eða afrískum þjóðbúningum. Þingkonum fjölgar ört á heimsvísu, enn eru þó sex þjóðþing þar sem engin kona á sæti en hins vegar eru tvö þjóðþing þar sem konur eru yfir 50% þingmanna, Rúanda og Andorra.

Ísland er og hefur verið í forustu jafnréttismála. Það leggur okkur þær skyldur á herðar að láta ekki staðar numið hér heldur halda áfram og finna leiðir að auknu jafnrétti. Á heimsvísu er stærsta viðfangsefnið vinnan gegn hvers konar ofbeldi og fátækt. Samhliða og sennilega nauðsynleg forsenda árangurs er að vinna að jöfnum hlut kvenna og karla í stjórnunarstöðum og stjórnmálum jafnframt því að jafna launamun kynjanna og draga úr kynjaskiptingu á vinnumarkaði.

Lausnir okkar nýtast annars staðar og lausnir annars staðar frá nýtast okkur. Þess vegna fannst mér gaman að hlusta á þingkonu frá Rúanda ræða um mikilvægi fjölskylduvinsamlegs skipulags á þingi. Við ættum að hugsa um það í jólamánuðinum.

Einnig fannst mér áhugavert að heyra af áherslum íbúa Jamaíku á uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir konur (Forseti hringir.) þegar unnið er með byggðaþróun á landsbyggðinni. Við þurfum að nýta tækifærin sem felast í jafnrétti.