143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir jól.

[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aðeins um dagskrá þingfundarins og síðustu atriðin sem hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir nefndi. Það er full ástæða til að hrósa stjórnarmeirihlutanum. Hér eru komin fram tvö þjóðþrifamál, annað frá hæstv. innanríkisráðherra sem varðar nauðungarsölur og hitt frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem varðar gjaldþrotaskipti einstaklinga. Þetta eru brýn mál sem góð samstaða er um í þinginu og var rætt við okkur í minni hlutanum um hvort þeim yrði ekki greidd leið hér í gegn þó að þau tækju ákveðinn tíma í umræðu í þinginu, m.a. vegna þess að einstaklingar hér úti eiga sumir mikið undir því að málin fái fljóta afgreiðslu.

Þar sem það er alveg ljóst að fjáraukalagafrumvarpið er svo meingallað að það mun áfram taka talsvert mikinn tíma í umræðu í þinginu legg ég til við hæstv. forseta að þessi mál verði fyrst á dagskrá þingfundar og umræðu um fjáraukalögin frestað þannig að það megi koma þeim til nefnda svo að þessi góðu mál sem hjálpa fólki í vanda fái skjóta afgreiðslu í þinginu á aðventunni.