143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir jól.

[15:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við höfum heyrt afstöðu forseta til dagskrárinnar eins og hún liggur fyrir. Ég vil þó leyfa mér að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar, ég teldi fulla ástæðu til þess að taka þau mál sem hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hafa lagt hér fram og var dreift í gær og eru komin á dagskrá fundarins í dag. Þetta eru mál, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, sem eru brýn og er ágæt samstaða um. Þau eru auðvitað þess eðlis að hér er verið að ræða um 1. umr. um þau mál. Þau eiga eftir að ganga til nefndar. Ég held að það færi vel á því að koma þeim að minnsta kosti til nefndar sem fyrst. Nefndirnar geta þá unnið að framgangi þeirra á meðan tekist er á um og fjallað um önnur mál í þingsal þannig að þau fái sem fyrst endanlega afgreiðslu. Ég held að um það sé góð samstaða þannig að ég hvet hæstv. forseta til að kanna hvort ekki sé hægt að hliðra að minnsta kosti til hvað þá dagskrárliði varðar.