143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir jól.

[15:41]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég styð þá tillögu sem fram hefur komið í ræðustól um að breyting verði gerð á dagskrá Alþingis þannig að þau tvö mál sem hér hefur verið vísað til, annars vegar varðandi gjaldþrotaskipti og hins vegar um frestun á nauðungaruppboðum, verði tekin fyrir núna í upphafi þingfundar. Þau mál þola hreinlega enga bið.

Gjaldþrotaskiptin eru í fullu samræmi við þingmál sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttu síðasta vor og endurfluttu nú í haust og er rík ástæða til að verði að lögum hið allra fyrsta.

Það er gott að heyra hæstv. forseta tala um að hann vonist til að þetta verði fyrir jól. Þetta þarf helst að gerast í dag eða á morgun. Til þess að hægt verði að vinna málið sómasamlega þarf það að sjálfsögðu að fara til nefndar og fá efnislega umfjöllun þar þannig að eðlilegt er að málið verði tekið þegar í stað á dagskrá.