143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[15:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég mun bara segja já við þessari tillögu enda mælendaskráin löng. Ég vek athygli á því að varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, er á þeirri mælendaskrá þannig að menn þurfa ekki að fara á límingunum yfir því að hann ætli ekki að taka þátt í umræðunni. (Gripið fram í.) Væntanlega munu allir komast að sem vilja fá að tjá sig.

Síðan þykir mér forsjárhyggja vinstri manna gengin ansi langt þegar þingflokksformaður Samfylkingarinnar krefst þess að menn setji sig á mælendaskrá og haldi ræðu. (Gripið fram í.) Það er svolítið sérkennilegt. Ég held að ég ráði því sjálf hvenær ég held ræðu og mun halda áfram að gera það. Ég tek ekki við neinum fyrirmælum frá þingflokksformanni Samfylkingar í þá veru. Ég er fullfær um að taka ákvörðun um það sjálf. Það er rangt sem fram kom í máli þingflokksformannsins að enginn stjórnarliði hafi verið í húsi fram eftir kvöldi, það er rangt, enda var það leiðrétt af formanni flokksins, Árna Páli Árnasyni.

Ég vona að umræðan verði gagnleg og góð og að við náum að komast í þau fjölmörgu mál (Forseti hringir.) sem hérna eru. Krakkar, finnst ykkur þetta ekki svolítið hjákátlegt? Það er (Forseti hringir.) ár síðan hlutverkin voru akkúrat öfug. [Háreysti í þingsal.]