143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[15:54]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er gaman að heyra hvað þingmenn stjórnarmeirihlutans eru vandir að virðingu sinni, [Hlátur í þingsal.] en við erum ekki öll búin að gleyma gærdeginum, ekki alveg. Ég fylgdist ágætlega með umræðunni hér í gærkvöldi í eins konar rafrænni fjarbúð og staðfesti það sem hér hefur komið fram, stjórnarandstöðuþingmenn höfðu orðið en engin andsvör komu frá stjórnarmeirihlutanum. Svo heyrum við þetta, mér liggur við að segja hjákátlega aðdáunarkvak í upphafi þingfundar þar sem menn dásama í símskeytastíl ágæti ríkisstjórnarinnar.

Áðan kom fram tillaga um að breyta dagskrá þessa þingfundar og taka mál sem brýnt er taka fyrir, frestun nauðungaruppboða. Það er ekki nóg að eiga orðastað við sýslumenn um frestun, þeir ráða í rauninni engu þar um. Það eru lánardrottnarnir sem verður að lögþvinga til að falla frá nauðungaruppboðum og um það snýst þetta mál. Ég skil ekki hvers vegna (Forseti hringir.) stjórn þingsins er ekki reiðubúin að fallast á þá sanngjörnu tillögu sem hér hefur komið fram. (Forseti hringir.) Þá væri annað hljóð í strokknum af hálfu stjórnarandstöðunnar leyfi ég mér að fullyrða.