143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[15:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að klára fjáraukalögin og koma þessu áfram í þinginu. Ég tek bara undir þær athugasemdir sem hér hafa komið, ég held að það skipti miklu máli að það eru einungis fjórar tillögur frá stjórnarandstöðunni sem hafa verið lagðar fram. Ein af þeim er um að borga þeim sem eru á atvinnuleysisbótum desemberuppbót. Mér finnst ekkert óeðlilegt að við ætlumst til þess að þeir sem eru í meiri hluta fjárlaganefndar geri hér grein fyrir afstöðu sinni og ræði við okkur um þetta mál. Það er tekið upp að nýju sem var áður hjá fyrri ríkisstjórnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, að borga ekki þessar bætur. Hvenær eigum við sem ekki erum í nefndinni að fá tækifæri til að ræða slík mál ef ekki í þingsal?

Jafnframt tel ég að hreinlega sé verið að brjóta reglur þar sem fyrrverandi ríkisstjórn samþykkti formlega sérstaka greiðslu til Landspítalans upp á 125 milljónir vegna óvæntra uppákoma þar, mikils álags vegna veirusýkinga. Því er ekki sinnt í fjárauka. Mun þetta koma fyrir 3. umr., mun það ekki koma? Eigum við að eyða tíma hér í að ræða þetta (Forseti hringir.) dag eftir dag eða verður þetta leyst? (Forseti hringir.) Við erum bara að biðja um þessa hluti þannig að ég þakka það að varaformaður fjárlaganefndar ætli að vera hér í kvöld. Ég treysti á að formaðurinn (Forseti hringir.) verði það líka og eigi orðastað við okkur um þessar tillögur.