143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[16:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég sat þennan þingfund í gærkvöldi til miðnættis og hlustaði á ræður og andsvör stjórnarandstöðunnar í millum og fannst ég upplifa það sama og við gerðum á síðasta kjörtímabili, í fjárlögum síðasta árs þegar við stóðum hér ein og sér og ræddum fjárlögin og ýmis önnur mál. Stjórnarliðar voru fjarverandi og við nýttum tímann með þessum hætti. Svona var þetta, svona er þetta og það mun ekki breytast nema við ákveðum það sjálf.

Ég er ekki að kalla eftir því að þessu verði breytt núna af því að aðrir stjórnarflokkar eru við völd. Þetta segir bara meira um umræðuhefðina á Alþingi sem við tölum um oft og mörgum sinnum að við séum tilbúin að breyta en svo erum við ekki tilbúin að breyta neinu. Þá skulum við bara sætta okkur við að hlutirnir eru svona og þá væntanlega verða þeir svona, virðulegur forseti.

Ég tek undir að það er margt á dagskránni og mun samþykkja lengingu þingfundar.