143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir andsvarið. Jú, væntingarnar voru orðnar uppblásnar af núverandi stjórnvöldum fyrir kosningar. Menn töldu að fljótlega eftir kosningar, innan mánaðar, fengju þeir, eins og sagt var í hálfkæringi, feitan tékka inn um póstlúguna.

Svo fór hinn kaldi veruleiki að renna upp fyrir fólki þegar fór að líða á og það sá að það hafði keypt köttinn í sekknum. Ég held að fólk hafi nú lært það af þessu hruni að menn verða að hugsa lengra fram í tímann en við Íslendingar gerum kannski yfir höfuð; við verðum að hafa borð fyrir báru.

Ég held að bæði atvinnulífið og fólkið í landinu, meginhluti þess, hafi ákveðið að fara ekki með opinn tékka út í fjárfestingar og annað vitandi ekki hvernig hin nýja ríkisstjórn mundi fóta sig, hvernig hún ætlaði að standa við uppblásin loforð um skuldaleiðréttingar. Og atvinnulífið — ég held að það hafi hálfpartinn verið slegið út af laginu vegna þess að ekki var farið út í þær fjárfestingaráætlanir sem farið var af stað með af fyrri ríkisstjórn, þar voru auðvitað væntingar um að margt væri að byggjast upp í fjölbreyttum atvinnuvegum í samfélaginu. En þegar það er fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að slá fjárfestingaráætlunina af þá held ég að mönnum hafi orðið um og ó.

En auðvitað urðu sumir glaðir, enda ekkert skrýtið, menn sem fengu afslætti upp á milljarða, bæði í útgerðinni og í ferðaþjónustunni og ríkasta fólk landsins.