143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður fór vel yfir það sem hér var gert á síðasta kjörtímabili sem sannarlega var ekki auðvelt, að rífa ríkisbúskapinn upp frá því að ramba á barmi gjaldþrots og vera þó kominn á þann stað að stefnt sé að hallalausum fjárlögum á næsta ári. Mér heyrðist hv. þingmaður vera sammála því, og ég er mjög sammála ríkisstjórninni í þeim efnum, að við eigum umfram allt að stefna að hallalausum fjárlögum. Ég tel reyndar að óráðsía í ríkisbúskapnum fram að þeim árum sem gjarnan hafa verið kölluð góðærið, þ.e. fyrir hrun, hafi líka valdið nokkru um hvernig fór. Ég vildi kannski spyrja þingmanninn hvort við gætum verið sammála um þá söguskýringu.

Hv. þingmaður minntist einnig á veiðigjöldin en ríkisstjórnin hefur ákveðið að lækka þær tekjur sem áætlaðar höfðu verið á það. Nú er hv. þingmaður utan af landi og þekkir mjög vel til þeirra mála. Menn hafa sagt að útgerðin hafi ekki ráðið við þær upphæðir sem þar voru lagðar til. Kannski hefði mátt endurskoða það hvernig það var lagt á, menn hafa sagt að einhver tæknilegur galli hafi verið á því eins og það var samþykkt á vorþinginu. En mig langaði að spyrja hv. þingmann: Er það álit hennar að útgerðin hefði ekki ráðið við þær upphæðir sem áætlaðar voru á hana í fjárlagafrumvarpinu eins og það lá fyrir?