143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar svör. Hér áðan var rætt nokkuð um fjarskiptasjóðinn og ég er meðflutningsmaður þingmannsins á þingsályktunartillögu um háhraðatengingar á landsbyggðinni. Ég held reyndar að ég geti montað mig af því að vera eini þingmaður höfuðborgarinnar sem er meðflutningsmaður á því enda tel ég ekki annað í boði árið 2013, ég tala ekki um þegar nær dregur árinu 2020, en háhraðatengingar séu þar sem við ætlum að hafa byggð í landi.

Hv. þingmaður minntist einnig á aðrar tillögur og annað sem skorið er niður og virðist vera fært mjög einkennilega yfir í aðra liði í fjáraukalögunum. Mér skilst að sumt af því eigi ekki að nota fyrr en á næsta ári en það var nú rætt svolítið í gærkvöldi. En aftur, af því að hún er utan af landi og hún minntist sérstaklega á Nám er vinnandi vegur, langaði mig að spyrja hvort það sérstaka verkefni hafi komið vel við þau byggðarlög og það unga fólk sem býr á þeim svæðum sem hún þekkir miklu betur til en ég — ég veit að atvinnuleysi ungs fólks er þar mikið og spyr hvort þetta komi þá í bakið á því fólki.