143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:50]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir ýmissa hluta sakir fer hér fram fróðleg umræða um frumvarp til fjáraukalaga. Nú er það að endurtaka sig sem gerðist í gær, og hefur kannski stundum gerst áður, að stjórnarandstaðan færir fram rök fyrir sinni afstöðu og af hálfu stjórnarmeirihluta verður fátt um svör. Þannig gekk það allan gærdaginn og fram yfir miðnætti. Síðan er í upphafi þingfundar dagskrárliður sem heitir Störf þingsins og þá koma stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar fram og halda tveggja mínútna lofræður um eigið ágæti þannig að samræða er af mjög skornum skammti.

Hins vegar eru menn að taka á mjög mikilvægri prinsippumræðu. Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sagði undir dagskrárliðnum störf þingsins í dag að fjáraukalög væru einfaldlega uppgjör við fjárlög núverandi árs og að stjórnarandstaðan nú sem að uppistöðu til var í stjórnarmeirihluta á síðasta kjörtímabili yrði að horfast í augu við eigin vanáætlun.

Er þetta alveg rétt? Að sjálfsögðu er þetta að einhverju leyti rétt, en það eru liðir á fjárlögum hvers árs sem erfitt er að áætla mjög nákvæmlega, einfaldlega vegna þess að við vitum ekki hver framvindan verður. Ég nefni sem dæmi náttúruhamfarir. Það geta komið til útgjöld á árinu án þess að menn hafi órað fyrir því að til slíks kæmi. Ég nefni hælisleitendur. Það er áætlað hve margir hælisleitendur komi til landsins með tilheyrandi tilkostnaði fyrir ríkissjóð, en þetta getur aldrei verið annað en líkindareikningur. Ef þeir eru fleiri en menn áætluðu verður að sjálfsögðu um að ræða meiri útgjöld til málaflokksins.

Ég held að þessi staðhæfing formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins eigi hins vegar ekki við núna nema að mjög takmörkuðu leyti vegna þess að í umræðunni um fjáraukann erum við í reynd að fást við ný fjárlög. Það er verið að breyta forsendum frá því sem samþykkt var á síðasta ári fyrir þetta ár. Menn hafa gagnrýnt það við umræðuna að það sé skaðlegt og varasamt að skapa óvissu í ríkisbúskapnum með þessum hætti. Það er óneitanlega verið að því.

Nú geta menn deilt um hvort það sé rétt og siðferðilega og pólitískt stætt á því að leggja fram fjárfestingaráætlun eins og við gerðum til nokkurra ára, annars vegar þar sem gerð var grein fyrir með hvaða hætti við ætluðum að afla tekna og hins vegar hvernig þessum tekjum yrði varið. Þá erum við að taka ákvarðanir sem snúa inn í framtíðina. Menn geta gagnrýnt það.

Það er alveg rétt að með nýrri ríkisstjórn kemur ný pólitík og nýjar áherslur. Það er ekkert óeðlilegt að þær breytist í tímans rás. Við höfðum til dæmis ekki þær áherslur í tíð síðustu ríkisstjórnar sem núverandi ríkisstjórn hefur varðandi skattheimtu. Við hefðum aldrei gefið útgerðarfyrirtækjum afslátt upp á 6,4 milljarða á ári eins og núverandi ríkisstjórn gerir. Við hefðum ekki fallið frá áformum um hálfan annan milljarð í skattlagningu á ferðaþjónustuna í landinu sem er aflögufær.

Ég hygg að við hefðum framlengt auðlegðarskattinn sem gaf ríkissjóði 9,1 milljarð. Það hefur verið bent á að hann hafi verið tímabundinn skattur. Það er alveg rétt, við áttum eftir að taka endanlega ákvörðun í því, en ég hygg að félagshyggjufólk hefði viljað setja þann skatt á sem er skattlagning á fólk sem á hreinar eignir, einstaklinga umfram 75 milljónir og hjón umfram 100 milljónir. Ég held að talan hafi staðið í því. Þetta var gagnrýnt, m.a. á þeirri forsendu að fólki gæti verið gert erfitt að halda eign sinni, íbúð, húsnæði, fullorðnu fólki, og það var nokkuð sem við vorum tilbúin að skoða. Við vorum tilbúin að skoða það til að fyrirbyggja slík slys af því að ekkert slíkt vakti fyrir okkur, heldur prinsippið að þeir sem eiga hreinar eignir sem einhverju nemur greiði eitthvert brotabrot af því til samfélagsins. Það var 1,25% af eigninni og fór upp í 1,5% og á tímabili upp í 2% þegar komið var upp í miklu hærri upphæðir en þessu nemur. Þarna var um að ræða yfir 9 milljarða á ári í ríkissjóð.

Ég held líka að ef við hefðum gert breytingar á tekjuskattskerfinu hefðum við liðkað til fyrir lægsta þrepinu, fólkinu með lægstu tekjurnar, og ekki gefið afslátt upp á 0,5% á millitekjuhópunum sem á að gefa ríkissjóði 5 þús. milljónir. Það er ekkert óeðlilegt að ríkisstjórn með þessar áherslur vilji ívilna stórútgerðinni, gefa henni afslátt upp á 6,4 milljarða, á sama tíma og hún kemur síðan til fundar eins og við urðum vitni að í vor og borgaði eigendum sínum í arð mörg þúsund milljónir. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum borgaði 1.100 milljónir, 1,1 milljarð, í arð síðasta vor eftir að hún hafði fengið sumargjöf ríkisstjórnarinnar.

Forsvarsmenn og eigendur Samherja hafa rætt um það að aldrei í sögunni hafi arður þeirra verið meiri en nú er. Ég hefði viljað fá einhverjar ræður um þetta undir liðnum um störf þingsins í dag af hálfu stjórnarmeirihlutans sem gefur afslátt hvað þetta snertir en á sama tíma ætlar hún að ráðast á sjúklinga, rukka veikt fólk sem leggst inn á sjúkrahús. Hún ætlar líka að skera niður við Ríkisútvarpið, hún er að skerða möguleika vísindafólks til starfa en aðeins áður en ég vík að þeim þáttum langar mig til að leggja áherslu á þennan fyrsta þátt í mínu máli sem snýr að þessu stóra prinsippi, nefnilega það að ríkisstjórn sem er komin til valda hefur fullt leyfi til þess að sjálfsögðu að hverfa frá áformum fyrri ríkisstjórnar ef þau eru ekki í samræmi við hennar pólitísku áherslur. Og þær eru ekki í samræmi við það. Hún vill sem sagt létta stórlega sköttum af þeim sem eru aflögufærir í þjóðfélaginu, auðlegðarskattinum, skatti á útgerðina, á ferðaþjónustuna, og þá verður náttúrlega eitthvað að gefa eftir. Það eru vísindarannsóknirnar, sjúklingarnir, Ríkisútvarpið og almannaþjónustan á ýmsum sviðum. Það er ekkert óeðlilegt að þetta þurfi að haldast í hendur.

Hitt er óeðlilegt að gagnvart fjárlögum yfirstandandi árs sé ráðist í grundvallarbreytingar eins og hér er verið að gera. Þá er verið að breyta forsendum fjárlaganna og kippa fótunum undan traustri áætlanagerð hjá þeim sem eiga að njóta fjárins. Að vísu er ríkisstjórnin að hörfa til baka á ýmsum sviðum eins og hvað varðar rannsóknarsjóði til vísindamanna. Í upphaflegu tillögunum var ráðgert að skera niður framlag upp á 221 milljón til Rannsóknasjóðs Rannís. Það er verið að hörfa frá því að skerða núna tækniþróunarsjóðina eftir að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins sendu frá sér yfirlýsingar. Það er ekki horfið frá niðurskurði á markáætlun Raunvísindastofnunar. Það eru líka peningar sem eru ætlaðir til nýliðunar.

En bara svo þetta verði ekki einhverjar tölur abstrakt út í loftið langar mig til að velta því upp hvað þetta raunverulega þýðir fyrir einstaklinga. Við erum að tala um fjármuni sem ungir vísindamenn njóta þegar þeir koma hingað til starfa, iðulega eftir margra ára nám annaðhvort hér heima, í Háskóla Íslands eða öðrum háskólum, eða háskólum erlendis, iðulega með miklar námsgráður í farteskinu eftir ærin útgjöld og oft og tíðum mikið erfiði. Hvað fær þetta fólk í tekjur almennt, ungir vísindamenn sem koma til starfa hér í vísindaumhverfinu? Hvað skyldi það vera mikið? Mér er sagt að svokallaðir póstdoktorar, þ.e. fólk sem hefur lokið doktorsnámi og fær hér störf við vísindaiðkanir, séu með í tekjur á bilinu 305–315 þús. kr. á mánuði. Það er alveg rétt, það er til fólk sem er á enn lægri launum, undir 200 þús. kr., en þetta eru engu að síður ekki há laun fyrir þetta fólk. Það sem 221 millj. kr. niðurskurður hefði þýtt er að 30–40 manns á þessum launum missti vinnuna sína. Það er það sem þetta þýðir. Þegar haldið er við áform um að skerða markáætlunina um 200 milljónir, það er enn þá þráast við þar, erum við að tala um eitthvað sambærilegt. Síðan halda menn miklar ræður á hátíðarstundum um nauðsyn þess að efla vísindin, sprotafyrirtækin o.s.frv. Ég hvet alla til þess að fletta upp í Fréttablaðinu í dag, þar er ágæt úttekt á því hverju stuðningur við sprotafyrirtæki og rannsóknir hafi skilað á undangengnum árum. Arðurinn mælist í milljarðatugum, segir í fyrirsögn og ég les fyrstu setningarnar í þessari grein, með leyfi forseta:

„Þau 13 fyrirtæki sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 höfðu endurgoldið ríkissjóði framlagið 20–40-falt árið 2012. Arðurinn af fjárfestingu ríkissjóðs mælist í tugum milljarða.“

Á þetta benda menn sem handfast í þessum efnum. Þetta er samantekt frá Samtökum iðnaðarins um verðmætasköpun og tekjuöflun ríkissjóðs af fyrirtækjum sem hafa notið styrkja til nýsköpunar- og þróunarverkefna. Ég hvet fólk til að lesa þessa ágætu úttekt sem birtist í Fréttablaðinu.

Svo ég taki önnur dæmi þar sem forsendum er hreyft, og sums staðar alvarlega, nefni ég samgöngumálin. Þar er skorið niður til almenns viðhalds í samgöngumálum um hálfan milljarð á þessu ári. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að Vegagerðinni er meinað að ráðast í viðgerðir sem þessari upphæð nemur á þessu ári og það er yfir þessu sem hún hefur sárlega kvartað á undanförnum árum vegna þess að við sem erum í þessum sal höfum kannski verið allt of upptekin við stórframkvæmdirnar. Menn hafa horft á göngin, ferjur, brýr og breikkun vega en sinnt í of litlum mæli viðhaldi almennt í vegakerfinu. Við reyndum að laga þetta nokkuð undir lok kjörtímabilsins. Við vorum mjög meðvituð um það hve varasamt væri að skera niður viðhaldið en þannig var það.

Síðan er annað, það er skorið niður í nýframkvæmdum um 620 milljónir. Þetta eru framkvæmdir sem ýmist höfðu verið boðnar út og jafnvel gerðir samningar og áhöld um hvort ríkið sé jafnvel bótaskylt í því efni en síðan náttúrlega sér maður gamla vini eins og Vaðlaheiðargöngin. Þar er forgangsraðað. Þar voru framkvæmdir fyrr á ferðinni en margir höfðu ætlað. Þá er brugðist við í hvelli og ríkissjóði heimilað að auka lánveitingar um 300 millj. kr. Á bls. 83 í fjáraukalagafrumvarpinu stendur:

„Í þriðja lagi er nú gert ráð fyrir 800 millj. kr. meiri lánveitingum ríkissjóðs en áætlað var við afgreiðslu fjárlaga, þar af 500 millj. kr. til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og 300 millj. kr. til Vaðlaheiðarganga hf.“

Þarna er náttúrlega forgangsraðað. Þarna er mönnum gefið grænt ljós á að vera á fullu blússi en við ýmsar aðrar framkvæmdir, sem höfðu verið ákveðnar samkvæmt fjárlögum og öðrum lögum, er ekki staðið. Þarna eru komin enn fleiri dæmi þess að það stenst ekki sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sagði hér fyrr í dag, að í fjáraukalögunum birtist vanáætlun fyrri ríkisstjórnar á eigin áætlunum. Það er ekki rétt. Það er einfaldlega verið að breyta öllum forsendum sem þessu nemur og ég hef vikið að. Við erum í rauninni að taka hér mjög mikilvæga prinsippumræðu. Ég greini á milli þess sem er að gerast á þessu ári og hins sem við höfðum áætlað inn í framtíðina vegna þess að þar birtast eðlilega pólitískar áherslur núverandi ríkisstjórnar og við erum farin að kynnast þeim. Þjóðin er farin að kynnast þeim.

Menn koma hingað upp óskaplega sælir hver á fætur öðrum í dag, berja sér á brjóst og tala um eigin afrek. 5 þús. milljónir, sagði einhver, er verið að gefa fólki í skattafslátt en á sama tíma á að læða inn í lögin komugjaldi á spítalana. Það er gert í frumvarpi sem verður til umfjöllunar hér á eftir, þegar við höfum lokið umræðu um þetta frumvarp. Það er líka prinsippmál og prinsippumræða sem við verðum að taka alvarlega.

Af því að ég er að koma að lokum ræðutíma míns verð ég að segja að ég harma mjög að stjórn þingsins skyldi ekki hafa fallist á tillögur sem komu fram í ræðustól Alþingis hér fyrr í dag um að breyta dagskránni og endurraða henni þannig að við gætum tekið frumvörp sem komið hafa frá tveimur ráðherrum í ríkisstjórn, annars vegar frá hæstv. húsnæðismálaráðherra og hins vegar innanríkisráðherra, í fyrra tilvikinu þingmál sem snýr að gjaldþrotaskiptum og í hinu síðara um frestun á nauðungarsölum, vegna þess að það eru þingmál sem þola enga bið. Það var gott að heyra forseta þingsins lýsa því yfir að hann vonaðist til að málið yrði afgreitt fyrir jól, en það er ekki nóg, það þarf helst að afgreiða þessi mál í dag.