143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir sköruglega ræðu eins og hans er von og vísa. Ég kem hingað upp til að spyrja hann út í fjárlagalið sem heyrir undir hans fyrra ráðuneyti, innanríkisráðuneytið, og varðar fjarskiptasjóð.

Samkvæmt tillögu meiri hluta fjárlaganefndar er 195 millj. kr. af mörkuðum tekjum sem áttu að renna til að bæta netsamband úti um land — hætt er við það og þessa fjármuni á að nýta í öðrum tilgangi innan fjarskiptasjóðs. Minni hluti fjárlaganefndar hefur lagt til að þessar 195 millj. kr. verði nýttar í það sem upphaflega stóð til enda hafa mörg sveitarfélög lýst áhyggjum sínum af skorti á netsambandi og slæmum áhrifum þess á búsetuskilyrði.

Ég held að ég og hv. þingmaður, sem og aðrir þingmenn hér í þessum sal, séum sammála um að lélegt netsamband er í því samfélagi sem við búum í í dag gríðarlega vont. Það er mikið hagsmunamál að hafa gott netsamband. Það er mjög slæmt fyrir byggðaþróun ef ákveðnar byggðir verða óspennandi að þessu leyti, ef fólk vill ekki búa þar eða getur ekki unnið í fjarvinnu eða slíkt vegna lélegs netsambands. Ég vildi heyra í hv. þingmanni, sérstaklega í ljósi þess að hann var innanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili, hvað honum finnist um þessi svik við byggðir landsins.