143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:12]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef við værum að ráða okkur til starfa einhvers staðar á landsbyggðinni, hvað er það sem við spyrðum um áður en við tækjum endanlega ákvörðun? Við mundum að sjálfsögðu spyrja hvers eðlis starfið væri sem okkur byðist, við hvað við kæmum til með að starfa til að afla okkur lífsviðurværis. Við myndum spyrja um barnaheimili og skóla fyrir börnin ef við værum barnafólk. Við vildum hafa góðar samgöngur og löggæslu og þessa grunnþjónustu samfélagsins. En ekki síst mundum við spyrja um samband okkar við umheiminn, möguleika okkar til að taka þátt í starfi sem í mjög ríkum mæli hjá mjög mörgum byggir orðið á netsambandi, það gerir það, og síðan bara lífinu almennt vegna þess að netmiðlarnir og netsamgöngur eru samgöngur samtímans í mjög ríkum mæli.

Ég kem hingað upp fyrst og fremst til að lýsa fullkominni samstöðu með þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður viðrar hér. Ég er algerlega sammála því að þetta er grundvallaratriði og eiginlega furða ég mig á því að menn skuli láta sér koma til hugar að gera þetta. Við höfum ekki farið nógu hratt fram í þessum efnum. Sú var tíðin, upphaflega var það svo, að gengið var út frá því að fjarskiptasjóður yrði ekki starfandi í framtíðinni. Menn sáu hins vegar hvers konar rugl það var því að stóru síma- og fjarskiptafyrirtækin mundu ekki sinna ýmsum svæðum. Þess vegna ákvað síðasta ríkisstjórn að framlengja líf fjarskiptasjóðs til að sinna verkefnum á borð við þetta. Ég er því algerlega sammála hv. þingmanni.