143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í þessum sal séu í raun allir sammála því að bæta þurfi netsamband á ýmsum stöðum hér á landi. Við getum bara sett okkur í spor þeirra sem búa við lélegt netsamband. Öll þau skipti á dag sem við förum á netið, stundum til að afla okkur frétta en oft til að afla okkur upplýsinga um opinberar stofnanir eða ýmsa þjónustu sem í boði er hvort sem það er fyrir börnin okkar eða foreldra okkar eða okkur sjálf — ímyndum okkur að við hefðum ekki þetta aðgengi og þegar við þyrftum einhverjar upplýsingar þá mundum við setjast niður, draga fram símaskrána, fletta upp símanúmeri og hringja, bíða eftir því að okkur verði svarað, komast síðan að því að við séum að hringja á vitlausan stað, það sé ekki á þessum stað sem upplýsingar um viðeigandi þjónustu séu veittar. Ef við erum heppin er númerið gefið áfram á réttan stað eða þá að við fáum gefið upp númer sem við eigum að hringja í og hringjum á næsta stað.

Ég velti fyrir mér hvaða þróun hv. þingmaður sjái fyrir sér ef það tefst öllu lengur að allar byggðir sitji við sama borð þegar kemur að nettengingum.