143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst alltaf gaman að hlusta á hann og vil byrja á því að segja að mér þykir leitt að hafa ekki komist á námskeið pírata í hádeginu um daginn en ég var bundin í fjárlaganefnd. Nú veit ég ekki hvernig mætingin var en ég hvet þá til að bjóða okkur aftur eftir áramót.

Þingmaðurinn ræddi töluvert um það hvernig við greinum fjárlögin og hvað við gerum. Ég held að það sé akkúrat það sem kom fram hér fyrr í umræðunni í dag. Við getum setið og greint en þetta snýst auðvitað um mismunandi áherslur og leiðir að markmiðum.

Mig langar að spyrja þingmanninn af því að hann er mikill áhugamaður um netsamband, tölvur og allt sem því viðkemur og góð slík samskipti. Nú liggur fyrir breytingartillaga frá minni hlutanum til að bæta meðal annars fjarskiptasjóði upp 195 millj. kr. til að standa straum af kostnaði við hluta verkefna sinna. Mun þingmaðurinn styðja það mál?