143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Glöggt er gests augað og þó hv. þingmaður sé ekki gestur þá er hann nýr hérna og mér finnst áhugavert að heyra hann ræða fjárlögin. Ég er bara hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég kannaði þetta varðandi uppsetninguna sem mér finnst algerlega út í hött. Hún er bara búin að vera svona rosalega lengi, þess vegna er hún svona. Jafnvel þó að maður sé ekki alveg að byrja á þingi og sé að vinna í þessu þá er þetta heljarinnar mál, t.d. eru textinn og tölurnar ekki á sama stað.

Það sem mér finnst allra verst er að maður sér ekki þróunina. Ég þurfti að hafa mjög mikið fyrir því að reyna að skoða þróunina — það var bara handavinna og ég þurfti að kalla eftir upplýsingum. En þá sá ég nokkuð sem ég held að komi flestum á óvart, í það minnsta held ég að menn hafi ekki áttað sig á því hvar við höfum verið að auka virkilega í og hvar við höfum verið að spara á undanförnum árum. En ég er bara sammála hv. þingmanni.

Ég vildi bæta einu við af því að hv. þingmaður er mjög upptekinn af mikilvægum málum, tölvumálum. Ingólfur Margeirsson — blessuð sé minning hans — sagði einu sinni: Sjúkur maður á bara eina ósk, heilbrigður maður margar. (Forseti hringir.) Og ég held að heilbrigðismálin séu einna mikilvægust með fullri virðingu fyrir öðrum mjög mikilvægum málaflokkum.