143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekkert ósammála hv. þingmanni, hann má ekki taka því þannig. Og maður þarf ekkert að fara í andsvar vegna þess eins að maður sé ósammála einhverju eða vilji spyrja einhvers. Ég var bara að taka þátt í samræðunni með hv. þingmanni.

Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég held að öll umræða um stjórnmál yrði betri ef fjárlögin væru til dæmis sett upp á aðgengilegri hátt, yrðu skýrari. Ég tel mjög æskilegt og mikilvægt — auðvitað kostar það peninga, þetta er spurning um hvað við viljum gera — að almenningur sé meðvitaður um hvernig peningum þeirra er varið.

Ég hef flutt mál þar að lútandi, með hv. varaþm. Óla Birni Kárasyni og hv. þm. Brynjari Níelssyni, um mikla opnun hvað þetta varðar. Því betur sem ég skoða málið þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að það sé alveg hægt að breyta en þetta snúist hins vegar um viljann. Ekkert er ómögulegt og þó að þetta sé stórt mál þá snýst þetta um viljann og það er miklu betra að taka umræðuna þegar allar upplýsingar eru á borðinu heldur en þegar menn átta sig ekki á þessu og þora ekki í málið þess vegna.