143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir svo gaman að í hvert sinn sem ég nefni tölvur, gögn og internetið og það allt í pontu eru flestir sammála, sem mér finnst alveg frábært. Aftur vil ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir að standa að þessu verkefni á seinasta ári og sömuleiðis hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir tillögu sína að því að opna gögn á sveitarstjórnarstigi.

Það er líka hárrétt sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir segir um sniðið á gögnunum. Þau eru á hráu sniði og það einmitt vekur svo mikið traust vegna þess að þá getur fólk gert hvað sem það vill með þau. Við eigum ekki endilega að matreiða þessi gögn ofan í almenning, þvert á móti einmitt eins og hv. þingmaður nefnir getur það virkað ótrúverðugt. Miklu frekar er að við opnum allt.

Ég held að það sé alveg satt að kerfið er ekki með það mikinn mótþróa þegar allt kemur til alls. Ég held ekki að þar liggi vandinn heldur þvert á móti þurfum við bara að vilja þetta. Ég sé að hér er samstaða milli hv. þingmanns Samfylkingar, hv. þingmanns Sjálfstæðisflokks (Forseti hringir.) og vissulega okkar pírata og því vona ég að þetta starf muni bara halda áfram og styrkjast.