143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á því að hafa ekki verið mjög nákvæmur en það var vegna þess að mig langaði til að leiða umræðuna yfir í eitthvað aðeins lausnamiðaðra, með fullri virðingu og þótt ég taki undir ræðu hv. þingmanns sem hann hélt áðan, a.m.k. það sem ég man eftir.

Ég var sérstaklega sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um umræðuformið, þá stöðu sem við erum hér í og hvers vegna við erum að funda langt fram á kvöld í gær, hvers vegna við erum að karpa um það hver sé í þingsal og hver sé að hlusta á það sem heyrist í sjónvarpinu eða á netinu eða hvaðeina, en ítreka að það var ekki þangað sem mig langaði að leiða umræðuna. Ég vildi bara nefna það til að það væri einhvers staðar staðfest á netinu.