143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það góðra gjalda vert að ræða um umbúðir og tækni í samskiptum okkar, en það er lausnamiðað að tala um hvort setja eigi 200 milljónir í að fjármagna störf ungs vísindafólks eða hvort það eigi að slá þær af eins og ríkisstjórnin áformaði að gera. Það er lausnamiðað að ræða um það og færa rök fyrir því með og á móti.

Það er lausnamiðað að tala um niðurskurð til almennra vegaframkvæmda, viðhalds á vegum, það er lausnamiðað að ræða það og hvaða afleiðingar það getur haft. Síðan getur hitt skipt máli hvort við getum hraðað þessum umræðum eða gert þær markvissari með því að gera þetta á netinu en þetta er innihaldið sjálft og það er lausnamiðað að færa fram rök með og á móti áformum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.