143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo það sé á hreinu er ég sammála hv. þingmanni um þessar 200 milljónir í vísindastörf. Þótt oft sé tilgangurinn sá að umræðurnar séu lausnamiðaðar get ég ekki annað en tekið eftir því sem hefur verið nefnt að hér tekur nær einungis hinn svokallaði minni hluti til máls.

Hvers vegna er það? Það er vegna þess að stjórnarmeirihlutinn er búinn að læra það af reynslu að með því að taka of mikinn þátt í umræðu sem þessari er hann bara að sóa tímanum. Það er reynslan. Það eru ekki fordómar af hans hálfu heldur. Það versta er að minni hlutinn getur voðalega lítið gert í þessu vegna þess að svona er sniðið, svona er formið, svona eru hefðirnar, svona eru vinnubrögðin á hinu háa Alþingi.

Ég tek auðvitað undir það sem hv. þingmaður sagði um þessar 200 milljónir í vísindastörf, það var bara búið að nefna þetta svo oft og mér fannst ekki þörf á að gera það enn einu sinni. (ÖJ: Nei, en hver er farinn að hörfa núna? Þau eru á flótta vegna umræðunnar.)