143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt andsvar. Ég man ekki eftir því — það má vel vera að einhvern tíma hafi það verið en ég man ekki til þess — að fjárlaganefnd, í það minnsta meiri hlutinn, hafi verið í vinnu eins og verið hefur núna. Við höfum verið í þeirri vinnu að reyna að hagræða, finna leiðir til að setja fjármagn í heilbrigðismálin. Það hefur verið forgangsmál. Við verðum að finna peningana einhvers staðar og það höfum við sett í algeran forgang.

Ég gæti líka spurt hv. þingmann sem var ráðherra í síðustu ríkisstjórn: Af hverju var ekki áætlað fyrir desemberuppbótinni? Af hverju voru þeir fjármunir sem hugsanlega geta farið í það nýttir í annað?