143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í raun alltaf sama svarið varðandi öll málin. Okkur var sagt, og ekki bara okkur heldur allri þjóðinni, að fjárlög yrðu hallalaus árið 2013. Þau voru ekkert hallalaus. Menn geta svo komið og pikkað í einstaka liði og sagt: Heyrðu, við lofuðum að setja pening hér, af hverju gerið þið það ekki? Menn geta sagt: Við lofuðum þessu og hinu. Menn lofuðu líka hallalausum fjárlögum, en það voru bara gúmmítékkar, það er það sem við erum að eiga við.

Ég hef farið mjúkum höndum um fyrrverandi ríkisstjórn hér í umræðunni og ætla að reyna að gera það áfram, því að ég vonast til þess að umræðan verði á öðrum nótum en á pólitískum kappræðufundi, þó er ég alveg tilbúinn í það ef svo ber undir. En ég hlýt að spyrja fráfarandi hæstv. ríkisstjórn: Af hverju sögðuð þið ekki satt varðandi fjárlagahallann? Og af hverju að lofa hlutum og segja síðan við okkur: (Forseti hringir.) Af hverju standið þið ekki við þá? Það eru ekki til neinir peningar fyrir þeim.