143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þakklátur hv. varaformanni fjárlaganefndar fyrir að taka þátt í þessari umræðu og ég er líka þakklátur honum fyrir að minna okkur á skattafsláttinn sem núverandi ríkisstjórn hefur gefið stórútgerðinni, efnafólki og stöndugum fyrirtækjum í landinu, sem að hluta til skýrir erfiðari stöðu ríkissjóðs, erfiðari en hún hefði ella þurft að vera. Þannig vil ég minna á að hækkun á virðisaukaskatti á ferðamennskuna úr 7 í 14% sem átti að koma til framkvæmda á þessu ári skilar að mati sérfræðinga 1,5 milljarði á ársgrundvelli. Það hefði mátt koma í veg fyrir það, ef menn hefðu verið þannig þenkjandi, að ríkisstjórnin færi að afla þessa fjár með því að skattleggja veikt fólk sem leggst inn á sjúkrahús landsins, það stendur til að gera það.

Síðan vil ég segja hv. þingmanni að hann þarf ekki að vera feiminn við að ræða stöðu Íbúðalánasjóðs, (Forseti hringir.) hvorki fyrr né síðar. Sjálfur hef ég efasemdir um að þörf sé á því að setja þessar 9 þús. milljónir sem hann nefnir í Íbúðalánasjóð á þessu ári og næsta ári. Ég tel það vera rangt.