143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verða nóg tækifæri til að taka skattaumræðuna. En ég sagði aldrei að Íbúðalánasjóður ætti ekki í vanda, ég hef aldrei sagt það. Það sem ég sagði er að ég hefði efasemdir um að núna ætti að setja 4.500 milljónir og síðan aftur 4.500 milljónir til Íbúðalánasjóðs, vegna þess að hann hefur nægilegt eigið fé. Það er hins vegar verið að reyna að sjá til þess að hann komist yfir tiltekið þrep í eiginfjárstöðu upp á 5%. Meðan við horfum upp á stofnanir sem eiga við mikinn vanda að stríða, í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu og síðan ýmsa grunnþætti velferðarþjónustunnar, eigum við að forgangsraða.

Nú er það svo að við þurfum ekki á þessu að halda núna, Íbúðalánasjóður hefur nægilegt lausafé. Núna þarf hinar fyrirbyggjandi aðgerðir inn á Landspítalann í tækjakaupum þar, inn á sjúkrahús landsins og í skólana til að halda rekstrinum gangandi. Það er nefnilega staðreynd, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, að á Íslandi varð hrun, ég ætla ekkert að hætta að segja það, það varð hrun. Það var yfir 200 milljarða halli á ríkissjóði þegar ríkisstjórn (Forseti hringir.) þessa manns, hv. þingmanns, fór frá.