143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er partur af þessum ríkisstjórnarmeirihluta eins og aðrir hv. þingmenn og hefur mér nú ekki verið líkt við dömu áður en ég veit ekki hvað hv. þingmaður sér í mér hvað það varðar, eða hvort einhverjir aðrir í ríkisstjórnarmeirihlutanum séu þannig.

En velt var upp ýmsum hliðum þegar kom að útgjöldum og einstaka liðum. Ég veit ekki hvort ég get fullyrt um að menn hafi velt öllu fyrir sér hvað varðar einstaka liði en almenna reglan er sú að menn reyndu að velta flestum steinum. Menn geta svo velt því fyrir sér hvað er grænt og hvað er ekki grænt. Ég hef aldrei týnt mér neitt sérstaklega í því og treysti bara hv. þingmanni til að meta það hvað honum finnst vera grænt í tilverunni og pólitíkinni.