143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er lífið ekki þannig að það sé eins og excel-skjal. Ég held líka að við höfum fengið að upplifa það í tíð síðustu ríkisstjórnar að þó svo að þú sitjir við alla hluti eins og excel-skjal og setjir síðan prósentu og hækkar skatta hér og þar þá hefur það ekki tilætluð áhrif. Ef skattstefna síðustu ríkisstjórnar hefði haft tilætluð áhrif þá hefði ekki verið halli á fjárlögum, þá væri ástandið betra. Þá hefðu menn náð markmiðum um frumjöfnuð sem samkomulag var gert um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En það bara gekk ekki eftir. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega sama hvort þú tekur þetta eða eitthvað annað, þessi hugsun í skattamálum gengur ekki upp. Hún hefur ekki gengið upp á Íslandi og hvergi annars staðar í löndum sem við berum okkur saman við. Þess vegna þurfum við að breyta um skattstefnu. Ég tel að vísu að við höfum ekki gengið nógu langt í því.