143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga orðastað við þingmanninn og koma inn á það sem hann var að ræða. Hér hefur mikið verið talað um forgangsröðun og leiðir að markmiðum og annað slíkt og hefur auðvitað komið fram í fjölmiðlaumræðu og víðar að það er akkúrat munurinn á hægri stjórn og vinstri stjórn sem birtist í forgangsröðun, bæði fyrir fjáraukann og eins það sem er að birtast fjárlögum.

Af því að komið var inn á desemberuppbót sýnist mér núverandi ríkisstjórn svolítið vísa á fyrrverandi ríkisstjórn, að hún hafi ekki áætlað fyrir henni. Það er eins og með margt annað í hagkerfinu að áætlanir eru gerðar miðað við þær tölur sem liggja fyrir og núverandi ríkisstjórn gerir það með fjárlagafrumvarpi sínu sem og fjáraukalagafrumvarpi. Það er meira að segja ekki rétt þar sem vitnað er í félagsmálaráðherra í fjölmiðlum í dag þegar hún talar um prósentur atvinnuleysis. Hún tekur fram að hún hafi farið með minnisblað fyrir ríkisstjórn og fjárlaganefnd sé upplýst um það. Við höfum rætt þetta aðeins í fjárlaganefnd. Það virðist ekki vera vilji meiri hlutans að leggja þetta fram. Ég tek undir með þingmanninum og vona að það verði gert milli umræðna. Mig langar að velta því upp hér með þingmanninum hvort hann sé sammála mér í því að þær 300 milljónir sem hafa verið lagðar inn og tíndar saman, m.a. úr Atvinnuleysistryggingasjóði, úr Nám er vinnandi vegur, og var búinn til sjóður í menntamálaráðuneytinu, að tilvalið hefði verið að nýta þær og forgangsraða í þágu þessarar desemberuppbótar.