143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að fylgja eftir því sem við vorum að ræða um vinnumarkaðsúrræði og þá þjónustu sem veitt var ungu fólki, að reyna að beina þeim í nám í staðinn fyrir að vera á atvinnuleysisbótum, þá er komin út ný úttekt frá Ríkisendurskoðun. Unnin var mjög vönduð skýrsla um vinnumarkaðsúrræði og öll þau verkefni sem Vinnumálastofnun lét vinna fá gríðarlega góða umsögn. Sú vinna var meira og minna skipulögð þverpólitískt af aðilum, svokölluðum faghópum, græna hagkerfið var unnið þannig líka. Það voru vinnubrögðin sem við notuðum mjög oft, að reyna að ná breiðri samstöðu um hvernig staðið væri að hlutum.

Eitt af því sem þar var gert var atvinnutorg fyrir ungt fólk þar sem sveitarfélögin áttu frumkvæði. Þetta hefur verið sett upp á Suðurnesjum, í Kópavogi, í Hafnarfirði og í Reykjavík, þar sem verið var að vinna skipulega með það fólk sem taldist í mesta áhættuhópnum, þ.e. ungt fólk sem var atvinnulaust, var jafnvel á félagslegum bótum, jafnvel ekki, og var ekkert í skólum, fólk sem nánast var týnt í samfélaginu. Þetta er verkefni sem þarf að fylgjast með, fær það að lifa, er það í gangi, verður það áfram? Vegna þess að við erum alls ekki komin svo vel út úr áfallinu að við þurfum ekki á þessu að halda áfram alveg eins og desemberuppbótinni.

Varðandi tilfærslu á milli liða er þessi leikur hjá forsætisráðuneytinu nákvæmlega eins og sá hjá menntamálaráðuneytinu. Ólíkum liðum er safnað saman, settir í eina púllíu, það er engan veginn skýrt. Við getum jú sagt að við vitum að efla eigi þjóðmenningu á einhvern hátt og viðhald á húsum og öðru slíku. Hver á að úthluta því, og hvernig, eru þetta skúffupeningar hjá forsætisráðuneytinu? Það er alveg ljóst að ekki verður farið í útdeilingu á þessu — eða ég trúi því ekki að menn ætli að deila þessu út á þeim dögum sem líða frá fjáraukalögum fram til áramóta, að nokkur hundruð milljónum verði deilt út í þetta verkefni eða á annað hundrað milljónum.

Þetta hefði átt að fá alveg sömu umfjöllunina í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, að fordæma þessi vinnubrögð. Það er ekki vegna þess að verkefnin séu ekki góð, það er aðferðin við að stjórna fjármálum ríkisins þar sem gerð hefur verið sívaxandi krafa (Forseti hringir.) um gegnsæi og skýringar og upplýsingar um hvernig peningum er ráðstafað.