143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi afkomu sjávarútvegsins hvet ég fólk bara til að verða sér úti um þetta rit á heimasíðu Hagstofunnar. Það kom í gær, er afar fróðleg lesning og sýnir svart á hvítu að sá mikli hræðsluáróður sem keyrður var hér upp var algerlega tilefnislaus. Enn eitt metárið í afkomu sjávarútvegsins er þar staðfest. Reyndar bendir flest til að afkoman á þessu ári verði ágæt. Hrakspár um að afurðaverðið mundi lækka á árinu 2012 og að annað í þeim dúr mundi fara illa með greinina gengu ekki eftir og við fengum búbót í auknum þorskkvóta og ágætri loðnuvertíð. Engu að síður er niðurstaðan sú að þetta er mesta framlegð sem nokkurn tíma hefur verið í íslenskum sjávarútvegi þrátt fyrir, eins og ég segi, sennilega um það bil 7,5 milljarða í veiðigjöld í heild á árinu 2012. Ég hef þá tölu ekki nákvæmlega en ég held að þetta sé nærri lagi og þá er framlegðin áfram um 80 milljarðar eftir veiðigjöld. Það er nú ekki þannig að þessi grein sé að fara á hliðina.

Varðandi vinnumarkaðsúrræðin tekur maður í fyrsta lagi undir umvöndun meiri hluta fjárlaganefndar. Það er alveg sögulegt að verða vitni að því að fjárlaganefnd taki þetta djúpt í árinni gagnvart því að einhver framsetning mála í fjárreiðulagaskilningi sé fullkomlega óeðlileg — en hún ætlar samt að láta sig hafa það. Þetta er alveg ótrúlegt. Það er ekki gott að horfa upp á þetta kæruleysi og virðingarleysi gagnvart vönduðum leikreglum í þessum efnum.

Hið sama má segja um pottasullið í forsætisráðuneytinu. Og nú er skaði, herra forseti, að frumvarp hæstv. fjármálaráðherra sem boðað er um opinber fjármál skuli ekki vera komið fram þannig að við gætum mátað þessi vinnubrögð hér við fjárlagagerðina og fjáraukalagagerðina (Forseti hringir.) við hina björtu framtíð nýrra fjárreiðulaga eða laga um opinber fjármál. (Forseti hringir.) Það væri gaman að sjá hvernig það gengi upp.