143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við reyndum að beita mjög öguðum vinnubrögðum í síðustu ríkisstjórn við meðferð mála af þessu tagi, enda tóku allir það alvarlega að við þyrftum að taka okkur á, m.a. í kjölfar niðurstaðna úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég vil að minnsta kosti meina að við höfum reynt að sýna alla þá formfestu sem ber að gera þegar ákvarðanir eru rétt teknar af þessu tagi.

Oftast komu beiðnir frá ráðuneytum eða ráðherrum um aukafjárveitingar og þá fóru þær í ráðherranefnd um ríkisfjármál sem fór yfir þær og gerði svo eftir atvikum tillögur í ríkisstjórn eða tók undir eða andmælti tillögu viðkomandi ráðherra. Það var ráðherranefnd um ríkisfjármál og það var ríkisstjórnin sjálf sem samþykkti og færði til bókar að þar hefði verið tekin stjórnskipulega gild ákvörðun um aukafjárveitingu. Góð venja er þá að upplýsa fjárlaganefnd um að til standi að sækja um fjáraukalagaheimild vegna aðstæðna sem komið hafa upp. Ég sagði hér í gær og get endurtekið það að ég lít svo á og hef þannig lært réttinn í þessum efnum að þar með sé það orðin embættisskylda þess fjármálaráðherra sem leggur fram fjáraukalagafrumvarp næsta haust (Forseti hringir.) að leggja aukafjárveitinguna til við Alþingi, en Alþingi getur eftir atvikum hafnað henni (Forseti hringir.) og ráðherrann getur sjálfur mælt gegn því að hún verði samþykkt. (Forseti hringir.) En það er hluti af embættisskyldum hans að sjá um að rétt tekin ákvörðun berist Alþingi.