143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi kannski fyrst og fremst fá að notfæra mér það að við höfum hér í hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni einhvern þingreyndasta þingmanninn okkar og reyndan fjármálaráðherra, en ég hef eins og margir fleiri staðnæmst við álit meiri hluta fjárlaganefndar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem tala mjög ákveðið og deila mjög hart á þær tillögur sem lúta að menntamálaráðuneytinu og þessari 300 millj. kr. fjárveitingu vegna styttingar framhaldsskólans, sem út af fyrir sig gæti reynst vera hið verðugasta verkefni. Það sem ég hef staðnæmst við er að þar er augljóst að verið er að veita fjármuni inn á næsta ár, árið 2014, sem menntamálaráðherra getur notað til þessara verkefna á næsta ári.

Eins og ég man þetta frá því að ég sat í fjárlaganefnd 2003–2007 eru heimildir til útgjalda í fjáraukalögum bundnar við óhjákvæmileg útgjöld á yfirstandandi ári, þ.e. árinu 2013, og er á engan hátt ætlunin með fjáraukalögum að veita nýjar fjárheimildir fyrir næsta ár. Ég vildi bara spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þessi háttur sé í samræmi við fjárreiðulögin sjálf eða hvort þetta fari beinlínis gegn lögunum eða bara gegn tilgangi fjárreiðulaganna almennt.