143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og byrja á þeirri spurningu hvers vegna árin fjögur á síðasta kjörtímabili voru ekki notuð betur til að leysa vanda Íbúðalánasjóðs.

Hv. þingmaður gagnrýndi mjög í ræðu sinni að farið væri í að hagræða í rekstri ríkisins. Hann lýsti þeirri hugmyndafræði sinni að miklu betra hefði verið fyrir ríkisstjórnina að fara frekar í aukna tekjuöflun og ég skildi hv. þingmann þannig að hann ætti þar við skattahækkanir. Það væri þá ágætt fyrir okkur hér að fá útlistun á því hvaða skattahækkanir það eru sem Vinstri grænir hefðu beitt sér fyrir væru þeir enn við stjórnvölinn. Við þurfum ekki að tala um hugmyndir hv. þingmanns um veiðigjöld, við þekkjum þær. Hvaða aðrar hugmyndir eru það? Miðað við málflutninginn sem við höfum heyrt í þingsalnum dugar sú lækkun á veiðigjöldum sem átti sér stað í sumar alls ekki fyrir þeim útgjaldahugmyndum sem þingmenn minni hlutans — þá er ég að tala um þingmenn Vinstri grænna — leggja til og hafa talað fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé á móti þeirri hugmyndafræði að skila hallalausum fjárlögum sem er markmiðið hjá okkur varðandi fjárlögin, en stór hluti ræðu þingmannsins snerist um fjáraukalögin.

Hv. þingmaður minntist einnig á og gagnrýndi að rætt væri um þróunaraðstoð og framlög til þróunaraðstoðar. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var dregið úr þróunaraðstoð á árunum 2011 og 2012. Á þessi gagnrýni þá jafnframt við verk síðustu ríkisstjórnar? Ég bendi á að á þeim árum sem ég nefndi nam þróunaraðstoð 0,21% af landsframleiðslu en nú mun hún, ef fjárlagafrumvarpið verður eins og í stefnir, nema 0,23% af landsframleiðslu.