143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hef ég sex mínútur eða svo? [Hlátur í þingsal.] Sem sagt, örfáar spurningar. Vandi Íbúðalánasjóðs var viðvarandi viðfangsefni og honum var lagt til fé, staða hans kortlögð og unnið mikið með mál hans, meira og minna allt kjörtímabilið. (Gripið fram í: Lögum breytt.) Lögum var breytt og þar fram eftir götunum. Það var að mörgu að hyggja þar, m.a. að bjarga honum gagnvart áliti ESA og annað í þeim dúr. Síðan var Íbúðalánasjóður auðvitað nýttur í aðgerðir eins og 110%-leiðina og honum lagt til fé í því skyni. Það er því ekki eins og Íbúðalánasjóður hafi gleymst á þeim tíma.

Ég var aðallega ræðu minni að velta því upp og eiginlega harma að það skyldi vera þannig hjá núverandi ríkisstjórn að henni kæmi aldrei til hugar sá möguleiki gagnvart vanda ríkisfjármálanna og því að afla fjár til að setja í brýn verkefni, eins og við erum sammála að þurfi að gera með heilbrigðiskerfið, að að einhverju leyti að minnsta kosti gæti tekjuöflun komið til greina. Það er orðin sú breyting á, klár pólitísk breyting á, að ríkisstjórnin — það er bara tabú, það er bannað að ræða það í þessari ríkisstjórn. Ég kalla það hömlun — og vona að það móðgist enginn úti í þjóðfélaginu þó að ég segi það — að menn skuli ekki einu sinni geta velt því fyrir sér.

Á fyrra kjörtímabili og í tíð fyrri ríkisstjórnar fóru menn það sem kölluð hefur verið blönduð leið, blönduð leið sparnaðar og tekjuöflunar. Menn fóru ekki blinda niðurskurðarstefnu, „austerity-stefnu“, sem sætir vaxandi gagnrýni núna í hagfræðilegri umræðu alls staðar á Vesturlöndum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf meira að segja út tímamótaskýrslu síðastliðið vor þar sem hann lagði til við lönd í efnahagsþrengingum að afla líka tekna við slíkar aðstæður og leggja þær byrðar á breiðustu bökin. Þar hefur kannski að einhverju leyti verið litið til þess að hin blandaða leið hafði skilað góðum árangri á Íslandi. Ég hef margtekið það fram úr þessum ræðustóli að ég fagnaði því að fjárlagafrumvarpið kom fram í haust og stefnt var að hallalausum fjárlögum. Að því höfum við unnið hörðum höndum undanfarin þrjú ár — eða meira að segja fjögur og hálft — en síðustu þrjú árin eftir að við endurskoðuðum (Forseti hringir.) ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma hefur verið stefnt að því að ná hallalausum fjárlögum 2014 og ég er eindreginn stuðningsmaður þess að það sé gert.