143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega alveg ótækt, það sem hv. þm. Árni Páll Árnason hefur farið hér yfir að því er varðar verklag hv. fjárlaganefndar sem gengur í berhögg við þingskapalög. (Gripið fram í.) Við erum að auki að tala um verklagsreglur fyrir fastanefndir Alþingis sem eru samþykktar af forsætisnefnd í lok september 2011 þar sem þetta er áréttað. Það er nákvæmlega um hvernig kynning á að fara fram, umræða um drög að nefndaráliti og að niðurstaðan verði að liggja fyrir til að hægt sé að taka málið út. Það er ekki hægt að vinna svona. Það er nóg að vera með hlutina niður um sig að því er varðar pólitískt innihald þó að menn séu ekki líka þar staddir í tilverunni að þeir geti ekki einu sinni farið að verklagsreglum og þingskapalögum.